
Góðgerðardagur Grundaskóla haldinn á Jaðarsbökkum – Myndasyrpa
Undanfarna daga og vikur hafa nemendur og starfsfólk Grundaskóla á Akranesi verið að undirbúa góðgerðardag til styrktar hjálparstarfi eða svokallaðan Malavímarkað. Fór hann fram í íþróttasalnum að Jaðarsbökkum um hádegisbilið í dag. Yfirskriftin að viðburðinum var „Breytum krónum í gull.“
Til sölu var fjölbreytilegur varningur sem búinn var til af nemendum Grundaskóla en allur ágóði fer til Rauða krossins sem úthlutar til fólks í neyð í heiminum. Ágóðinn rennur til styrktar skólastarfi og hjálparstarfi fyrir ungar konur og börn í Malaví, einu af fátækustu ríkjum heims. Einnig var hægt að fá sér stóran bita af skúffuköku og kaffi/djús til styrktar málefninu. Þá gátu gestir rölt á milli sölubása og rætt við nemendur og starfsfólk. Kór Grundaskóla söng nokkur lög og þeir Róbert Kári Örnólfsson úr Grundó og Magnús Ingi Sigfússon úr Brekkó skemmtu síðan gestum og tóku nokkur frumsamin rapplög.
Blaðamaður Skessuhorns var á ferðinni á Jaðarsbökkum og fékk að smella nokkrum myndum af nemendum og gestum.









