
Jólagleði á Hvanneyri 29. – 30. nóvember
Það verður notaleg jólastemning á Hvanneyri dagana 29. – 30. nóvember en þá fer fram viðburðurinn „Jólagleði á Hvanneyri“. Hátíðin hefst á hinu árlega jólabingói Kvenfélagsins 19. júní sem haldið verður í matsal Landbúnaðarháskóla Íslands kl 20:00 á föstudagskvöldinu. Margir góðir vinningar verða eins og vant er og allur ágóði mun renna til góðgerðar- og líknarmála innan héraðs.
Daginn eftir verður dagskrá frá klukkan 13:00 – 17:00 á gömlu Hvanneyrartorfunni sem verður í hátíðarbúningi og ýmislegt verður um að vera fyrir alla aldurshópa. Í hlöðu Halldórsfjóss, sem hýsir nú Landbúnaðarsafn Íslands, verður markaður með íslenskt matar- og handverk og vörur beint frá býli, jólasveinn kíkir í heimsókn og munu gestir geta hlýtt á fallega jólatóna í flutningi Reykholtskórsins. Hægt verður að setjast niður og ylja sér í Skemmunni þar sem Kvenfélagið 19. júní mun selja veitingar. Borgfirsk jólatré verða til sölu beint frá býli og Slökkvilið Borgarbyggðar verður með opið hús og eldvarnarfræðslu. Þessu til viðbótar mun sr. Heiðrún Helga flytja stutta jólahugvekju í Hvanneyrarkirkju og eins verður Steinunn Þorvaldsdóttir ljósmyndari á svæðinu en hún mun bjóða upp á fjölskyldumyndatöku við fallegan og látlausan bakgrunn. Við lok dagskrár verða ljósin svo tendruð á grenitrénu við kirkjuna. Klukkan 21:00 mun Hvanneyri pub svo opna en þar verður skemmtilegt barsvar og kosningakvöld á dagskrá.
-fréttatilkynning