
Bylgja Sif Jónsdóttir leiðangursstjóri flokkar botndýr af sjávarbotni. Ljósm. aðsend.
Hafrannsóknastofnun fær 40 milljónir til rannsókna í Hvalfirði
Hafrannsóknastofnun hefur fengið 40 milljónir króna styrk til að framkvæma grunnrannsóknir á líffræði Hvalfjarðar. Styrkveitandinn er Röst sjávarrannsóknasetur og kemur upphæðin til viðbótar við 60 milljóna króna styrk sem Röst veitti stofnuninni fyrr á þessu ári til rannsókna á haffræði Hvalfjarðar. Þar með hefur Röst styrkt Hafrannsóknastofnun um samtals 100 milljónir króna á þessu ári til að fjármagna rannsóknir í Hvalfirði. Vonir standa til að eftir að verkefninu lýkur verði Hvalfjörðurinn einn best rannsakaði fjörður landsins. Markmið rannsóknanna er að afla grunngagna sem mikilvæg eru vegna fyrirhugaðra rannsókna Rastar á sviði aukinnar basavirkni sjávar.