Fréttir
Þessir fimm nemendur leika aðalhlutverkin í Vítahring. Frá vinstri: Róbert Leó Steinþórsson, Aldís Karen Stefánsdóttir, Jóel Birgir Ásþórsson, Róbert Elli Vífilsson og Jóhanna Vilborg Guðmundsdóttir. Ljósm. vaks

Vítahringur frumsýndur í Grundaskóla

Söngleikurinn Vítahringur verður frumsýndur næstkomandi föstudag í Grundaskóla á Akranesi. Að þessu sinni eru það nemendur í árgangi 2009 sem sjá um túlkun á verkinu. Söngleikurinn er byggður á samnefndri sögu Kristínar Steinsdóttur, en sú saga er byggð á Harðar sögu Grímkelssonar sem gerist að mestu leyti í næsta nágrenni Akraness og í Hvalfirði á landnámsöld. Handrit söngleiksins og tónlist sömdu þeir Einar Viðarsson, Flosi Einarsson og Gunnar Sturla Hervarsson. Vítahringur var fyrst settur upp í skólanum árið 2008 í anda Íslendingasagnanna en að þessu sinni er sögusvið verksins stílfært á annan hátt án þess að gefa of mikið upp, eins og kemur fram í veglegri leikskrá sem gefin hefur verið út. Verkið hefur verið aðlagað að nemendahópi árgangsins og stíga um 50 nemendur á svið en auk þeirra sinna um 20 nemendur hinum ýmsu verkefnum sem koma að uppsetningu eins og tæknistjórn, aðstoð á sýningum, leikmynd og förðun.