Fréttir
Frá sýningu Sauðfjárræktarfélagsins í Kjós. Þarna eru þrír efstu lambhrútar í flokki mislitra. Frá hægri er hrútur í efsta sæti; Steini frá Kiðafelli nr. 4, þá nr. 160 frá Miðdal og til vinstri nr. 96 frá Reykjum. Ljósm. Ólöf í Miðdal.

Yfirlitssýningar á bestu lambhrútum á Vesturlandi haustið 2024 – Jón Viðar skrifar

Haustið 2023 skrifaði ég yfirlit um sauðfjársýningahaldið á Vesturlandi 2023. Vart var við að hjá einhverjum lesendum Skessuhorns féll þetta í góðan jarðveg þannig að hér geri ég aðra tilraun vegna þess að ekki var síður margt frásagnarvert í haust. Bændur á svæðinu sýna áfram þann menningarlega þrótt að halda uppi slíkum yfirlitssýningum. Þær voru haldnar með glæsibrag á öllum sömu svæðum og í fyrra með þeirri undantekningu að engin sýning var í Strandasýslu. Það er dapurlegt vegna þess að í dag er hún vagga fjárræktar í landinu og slíkar yfirlitssýningar þar því mikilvægari en á öðrum stöðum. Ástæða þess að Strandamenn koma ekki saman með sína bestu gripi er mér sagt að sé að fyrir nokkrum árum kom á Hólmavík nýr sveitarstjóri sem samkvæmt fréttum hefur enga hæfileika aðra en að sundra því góða samfélagi sem þar var með lygaáburði um það fólk sem best hefur staðið að uppbyggingu þessa góða samfélags á síðustu áratugum. Um uppbyggingu Sauðfjársetursins tel ég mig geta borið vitni.