
Dótarí opnað að Skólabraut 14
Klukkan 13 í dag var verslunin Dótarí opnuð í bláa húsinu á Skólabraut 14 á Akranesi. Verslun með sama nafni var rekin á Akranesi fyrir nokkrum árum en lokað í árslok 2022. Nú hafa Axel Freyr Gíslason og Drífa Dröfn Siggerðardóttir unnusta hans opnað verslunina að nýju. Dótarí selur leikföng fyrir alla aldurshópa barna, föndurdót og nauðsynlegan varning fyrir afmæli og annað partístand. Óhætt er að segja að Dótarí sé stappfull af leikföngum og voru fyrstu viðbrögð viðskiptavina í dag undrun yfir því vöruvali sem þar er að finna.
„Í rauninni er þetta svipuð verslun og við Tinna heitin vorum með við Esjubraut og síðast á Smiðjuvöllum. Nú erum við hins vegar flutt í okkar eigið húsnæði og höfum innréttað miðað við vöruúrvalið sem í boði verður,“ segir Axel Freyr. „Hér geta viðskiptavinir til dæmis valið úr 250 tegundum af Legói og þá held ég að við séum með mesta úrval allra verslana landsins í Barbie. Verðið er aldrei hærra en svo að vera á pari við aðrar stærri leikfangaverslanir, en úrvalið er meira.“ Aðspurð segjast þau Axel og Drífa flytja allt sjálf inn frá birgjum og heildsölum í Evrópu.
Axel og Drífa stefna bæði að fullri vinnu við rekstur verslunarinnar. „Draumur okkar er að þurfa ekki að stunda aðra vinnu samhliða rekstri búðarinnar. Svo er líka gaman að opna verslun í gamla miðbænum og vonandi mun hún glæða miðbæinn lífi,“ segja þau. Drífa Dröfn hefur starfað hjá Elkem í áratug en Axel hefur frá unglingsaldri starfað hjá Skaganum 3X en missti vinnu sína eins og aðrir starfsmenn þar í sumar þegar fyrirtækið fór í þrot. Hann segir því þeim kafla hjá sér lokið.
Dótarí við Skólabraut 14 verður opin virka daga frá klukkan 13-18 og um helgar klukkan 11-15.








