
Umhverfisviðurkenningar 2024 afhentar í Borgarbyggð
Í dag voru hin árlegu umhverfisverðlaun Borgarbyggðar afhent við athöfn í Ráðhúsi sveitarfélagsins. Að venju er það umhverfis- og landbúnaðarnefnd sveitarfélagsins sem stendur fyrir þessari verðlaunaveitingu og stýrði Sigrún Ólafsdóttir formaður nefndarinnar samkomunni. Auglýst var eftir tilnefningum frá almenningi um hvaða garðar, býli eða fyrirtæki/stofnanir verðskulduðu að hljóta verðlaun fyrir árið 2024. Nefndin safnaði saman þeim tilnefningum sem bárust og fór í nokkrar vettvangsferðir til að meta aðstæður. Einnig var samfélagsviðurkenning afhent sem og sérstök aukaverðlaun. Verðlaunahöfum var afhent skjal sem Jósefina Morrell listakona frá Giljum hannaði. Þá fengu handhafar snyrtilegasta býlisins að venju afhent merki sem sett verður við bæjarskiltið út við þjóðveg.