
Fjórði sigur Skagamanna í röð
ÍA og Snæfell mættust í fimmtu umferð 1. deildar karla í körfuknattleik á föstudagskvöldið og var viðureignin í íþróttahúsinu við Vesturgötu á Akranesi. Liðin höfðu farið misvel af stað í deildinni, ÍA var með þrjá sigra í röð á meðan Snæfell hafði tapað síðustu þremur leikjum sínum. Það var ljóst frá fyrstu mínútu að heimamenn ætluðu sér sigur því þeir mættu miklu ákveðnari til leiks og Kristófer Gíslason var þar í aðalhlutverki með 13 stig og þar af þrjá þrista. Þegar fyrsta leikhluta lauk voru Skagamenn komnir með öll tök á leiknum og staðan 30:15. Í öðrum leikhluta héldu heimamenn uppteknum hætti og Snæfellingar virkuðu ráðvilltir og hittu illa úr sínum skotum og aðeins úr tveimur skotum af níu á vítalínunni. Þegar flautað var til hálfleiks var munurinn kominn í 25 stig og ekki skemmdi fyrir Skagamönnum undir lokin þegar Victor Bafutto skoraði þriggja stiga flautukörfu við mikinn fögnuð áhorfenda, staðan 55:30 ÍA í vil.