
Strax farin að skipuleggja hátíð á næsta ári
Skipuleggjendur Lilló harðkjarna tónlistarhátíðar á Akranesi voru hálf meyrir þegar blaðamaður heyrði í þeim hljóðið eftir helgina. „Fyrsta hljómsveitin steig á stokk á föstudag og húsið fylltist af þykkum bassa og ólýsanlegum trommuleik. Hljómsveitin Panil lokuðu svo föstudagskvöldinu með frábærum tónum og var rosalega gott andrúmsloft á tónleikastað,“ segir Bergur Líndal, einn skipuleggjandi hátíðarinnar. „Á laugardeginum hélt áfram sama gleðin og erum við þakklát þessu listafólki sem kom, víðs vegar að af landinu, og meira að segja einnig frá Danmörku. Þetta var frábær samvinna þar sem allir lögðu sitt að mörkum til að gera þetta að einstakri upplifun. Við vitum ekki alveg hvernig þessi hátíð verður toppuð, enda erum við strax byrjuð að skipuleggja hátíð á næsta ári,“ segir sáttur Bergur Líndal eftir hátíðina.