
Lucien Christofis í baráttu við Sigtrygg Arnar Björnsson í leiknum. Ljósm. Jónas H. Ottósson
Skagamenn úr leik í bikarnum eftir tap gegn Stólunum
ÍA og Tindastóll mættust í 32-liða úrslitum VÍS bikars karla í gærkvöldi og var leikurinn í íþróttahúsinu við Vesturgötu. Mikil eftirvænting var fyrir leiknum enda var stúkan þétt setin með yfir þrjú hundruð áhorfendum og stemningin eins og best var á kosið. Heimamenn byrjuðu af krafti og komust í 22:15 eftir rúman sex mínútna leik. Tindastóll svaraði síðan með 3-15 áhlaupi og leiddi með fimm stigum eftir fyrsta leikhluta, 25:30. Jafnræði var með liðunum í öðrum leikhluta, bæði lið að hitta vel og staðan í hálfleik 46:52 fyrir gestunum.