Íþróttir
Khalyl Waters í leik gegn Ármanni fyrr í vetur. Ljósm. Bæring Nói.

Naglbítur þegar Snæfell heimsótti Selfoss

Snæfell frá Stykkishólmi heimsótti Selfoss í þriðju umferð 1. deildar karla í körfubolta á föstudaginn. Leikurinn var hnífjafn í fyrri hálfleik en heimamenn á Selfossi náðu ágætis áhlaupi í enda fyrri hálfleiks og gengu liðin til búningsklefa í stöðunni, 50-45 fyrir Selfossi. Áfram var jafnræði með liðunum í seinni hálfleik en heimamenn þó skrefinu framar. Staðan fyrir loka leikhlutann var 70-63 fyrir Selfossi. Leikmenn Snæfells mættu í síðasta leikhlutann með mikilli grimmd og áræðni og náðu að minnka muninn í tvö stig, 78-76, þegar um þrjár mínútur voru eftir af leiknum. Snæfell gekk illa að ráða við Follie Bogan, leikmann Selfoss og náði hann að koma liði sínu í vænlega stöðu, 82-76, þegar um ein mínúta var eftir af leiknum. Eyþór Lár og Khalyl Waters skoruðu tvær þriggja stiga körfur með snöggu millibili en undir lok leiks, í stöðunni 84-82 fyrir Selfossi, stal Khalyl Waters boltanum fyrir Snæfelli og nældi í tvö vítaskot, þegar 10 sekúndur voru eftir af leiknum. Waters skoraði úr báðum vítaskotunum og jafnaði metin í 84-84. Selfoss tók því næst leikhlé, boltinn fór í hendurnar á Follie Bogan og hann náði að skora úr gríðarlega erfiðu stökkskoti, þegar um tvær sekúndur lifðu af leiknum. Tíminn var ekki nægur fyrir Snæfell að ná góðu skoti og vann Selfoss því sigur í æsispennandi leik, 86-84.