
Tap hjá Snæfelli í Stykkishólmi
Snæfellsliðið tók á móti Ármanni á föstudaginn en gestirnir sigruðu Skallagrím í fyrstu umferð 1. deildar karla í körfubolta á meðan Snæfell sigraði Fjölni og var því mikil spenna fyrir leikinn. Jafnræði var með liðunum á fyrstu mínútum leiksins en Ármenningar náðu miklu áhlaupi og breyttu stöðunni úr 8-8 í stöðuna 12-21 og Snæfell þurfti að taka leikhlé. Snæfell náði að minnka muninn í lok leikhlutans og var staðan 22-29 Ármanni í vil eftir fyrsta leikhluta. Ármenningar náðu mest tólf stiga forystu í öðrum leikhluta en Snæfellingar, með Khalyl Waters og Alejandro Rubiera í fararbroddi, náðu að saxa á forskot Ármanns og þakið ætlaði að rifna af íþróttahúsinu þegar Eyþór Lár jafnaði metin í 48-48 þegar stutt var eftir af fyrri hálfleik. Ármenningar áttu lokaorðið í fyrri hálfleik og gengu liðin til búningsklefa í stöðunni 48-53 fyrir Ármanni.