Fréttir
Haraldur Ingólfsson og Harpa Finnbogadóttir framan við nýju skrifstofu Sjóvá. Ljósm. mm

Sjóvá stækkar við sig á Akranesi

Tryggingafélagið Sjóvá flutti síðastliðinn föstudag skrifstofu sína á Akranesi frá Þjóðbraut 1 og að Smiðjuvöllum 28. Eftir að Landsbankinn keypti tryggingafélagið TM þótti ekki við hæfi að Sjóvá væri til húsa inni í útibúi bankans. „Við stækkum við okkur og höfum opið lengur á Akranesi,“ segir Haraldur Ingólfsson svæðisstjóri í samtali við Skessuhorn. „Við verðum nú með opið fyrir komur viðskiptavina í útibúið mánudaga til fimmtudaga frá kl. 9:00-16:00 og föstudaga frá kl. 9:00-15:00. Auk þess erum við að bæta við okkur starfskrafti og verðum því fleiri í útibúinu okkar. Nýverið var auglýst laust starf hjá okkur og verið er að vinna úr umsóknum. Ánægjulegt er að segja frá því að um fjórir tugir umsækjenda voru um starfið. Sjóvá hefur alltaf lagt sig fram við að veita framúrskarandi og aðgengilega þjónustu og við hlökkum til að halda áfram langri sögu Sjóvá á Akranesi. Við tökum enn betur á móti ykkur á nýjum stað í rúmgóðu og björtu húsnæði,“ sagði Haraldur.

Sjóvá stækkar við sig á Akranesi - Skessuhorn