
Áform um vindorkuver hafa áhrif til lækkunar fasteignaverðs
Talið er að hér á landi hafi verið lýst áformum eða vilja til að reisa á fjórða tug vindorkuvera. Í flestum tilfellum standa á bak við þessi áform erlendir fjárfestar. Þar af eru nokkur áform um slíkar virkjanir hér á Vesturlandi. Í engu tilfella hefur orðið af þessum framkvæmdum enn sem komið er, enda skortir lagaramma og stefnumótun fyrir vindorkuver af hálfu löggjafarvaldsins. Sömu stjórnvöld þrýsta hins vegar á um að flýta beislun vindorkunnar til að hraða megi orkuskiptum. Þar fer því ekki saman hljóð og mynd. Vísbendingar eru nú um að áform um vindorkuver séu þegar farin að hafa neikvæð áhrif á sölu fasteigna í nágrenni meintra vindorkuvera. Verð lækkar og ekki er lengur eftirspurn eftir eignum sem fram til þessa hafa verið auðveldar í sölu. Til dæmis í þeim tilfellum þar sem um er að ræða beina sjónlínu á fyrirhugaðar vindmyllur en þær geta náð allt upp í 280 metra hæð þegar spaðar eru í hæstu stöðu. Skessuhorn leitaði til Magnúsar Leópoldssonar fasteignasala hjá Fasteignamiðstöðinni og spurði hvaða áhrif slíkar áætlanir hafa á sölumöguleika fasteigna.