
UMFG tók á móti Vestra í fyrstu deild kvenna
Ungmennafélag Grundarfjarðar spilar í fyrstu deild kvenna í blaki í vetur. Fyrir rúmri viku tapaði félagið fyrsta leik sínum gegn Fylki en UMFG og Vestri mættust síðan á laugardaginn í Íþróttahúsi Grundarfjarðar. Það var því hugur í báðum liðum fyrir leik en gestirnir byrjuðu betur og unnu fyrstu hrinuna 25-17. Heimastúlkur í UMFG komu ákveðnar í hrinu tvö og unnu hana 25-13. Þriðja hrinan var jöfn og spennandi en heimastúlkur náðu að klára hana 25-20 og komast í 2-1 í leiknum. Gestirnir í Vestra komu mun ákveðnari til leiks í fjórðu hrinu og unnu hana með yfirburðum 25-11 og jöfnuðu því metin í 2-2. Það þurfti því oddahrinu til að knýja fram úrslit en eftir jafna og spennandi hrinu náðu gestirnir í Vestra að klára leikinn með því að sigra oddahrinuna 15-11 og þar með leikinn 3-2.