
Skagamenn fóru á kostum á móti FH
ÍA og FH mættust í þriðju umferð efri helmings Bestu deildar karla í knattspyrnu í gær og var leikurinn á Elkem vellinum á Akranesi. Þetta byrjaði með látum því strax á fyrstu mínútu leiksins komust gestirnir yfir með marki frá Kjartani Kára Halldórssyni sem þrumaði boltanum í nærhornið úr aukaspyrnu og fór boltinn í Árna Marinó markmann ÍA og inn. Skagamenn virtust slegnir við markið en voru fljótir að átta sig og á 10. mín jöfnuðu þeir metin. Steinar Þorsteinsson átti þá fyrirgjöf sem Viktor Jónsson skallaði í netið af stuttu færi og 17. mark Viktors í sumar staðreynd. Aðeins þremur mínútum síðar voru Skagamenn aftur á ferðinni þegar Haukur Andri Haraldsson náði boltanum af leikmanni Stjörnunnar, hann fór upp að endalínu og sendi boltann fyrir þar sem Jón Gísli Eyland kom aðvífandi og þrumaði boltanum upp í þaknetið. Heimamenn voru alls ekki hættir því á 21. mínútu leiksins kom þriðja mark þeirra þegar Johannes Vall fékk sendingu frá Hauki Andra, hann komst inn fyrir vörn FH einn á móti Daða Frey Arnarssyni, markverði FH, og laumaði boltanum snyrtilega framhjá honum. Þrátt fyrir nokkur ágætis færi í kjölfarið hjá báðum liðum tókst hvorugu að skora og staðan eftir fyrri hálfleikinn, 3-1 ÍA í vil.