
Stolið úr dósagámum Brákar
Ein af stærstu fjáröflunum margra björgunarsveita á landsbyggðinni er söfnun einnota drykkjarvöruumbúða. Svokallaðir dósagámar eru víða staðsettir og getur almenningur lagt björgunarsveitunum lið með að skila einnota dósum og flöskum í þá. Björgunarsveitin Brák í Borgarnesi er með nokkra slíka dósagáma, meðal annars við sumarbústaðahverfin í Svignaskarði og vestur á Mýrum. Undanfarið hefur talsvert borið á því að óprúttnir aðilar hafi brotist inn í gámana og stolið úr þeim. Söfnunargámarnir eru rammgerðir og þarf öflugt kúbein eða önnur verkfæri til að rjúfa læsingarnar. Þá hefur einnig verið stolið dósum úr kerru sem stóð við björgunarmiðstöð sveitarinnar á Fitjum í Borgarnesi.
Jakob Guðmundsson, félagi í Brák, segir í samtali við Skessuhorn það vera afar hvimleitt fyrir sveitina að fá ekki að hafa þessa söfnunargáma í friði fyrir óprúttnum aðilum og segir lágt lagst að stela frá björgunarsveitum. „Þessi fjáröflun okkar í Brák er sú sem er að skila sveitinni hvað mestum tekjum og því er þetta talsvert fjárhagslegt tjón fyrir okkur, bæði í formi þess sem stolið er og skemmda á dósagámunum,“ segir hann. Hvetur Jakob fólk til að hafa augun opin gagnvart grunsamlegum mannaferðum við söfnunargáma Brákar og annarra björgunarsveita. Einnig bendir hann á að þessi spellvirki hafi átt sér stað í nágrenni sumarhúsabyggða og því sé ef til vill sérstök ástæða til að hvetja eigendur húsanna að vera vel á verði.
