
Árvekniátak Krabbameinsfélagsins hafið – Bleika slaufan komin í sölu
Í dag, þriðjudaginn, 1. október hefst árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélagsins, Bleika slaufan. Í ár beinir Krabbameinsfélagið athyglinni að aðstandendum undir slagorðinu „Þú breytir öllu.“ Slaufan í ár er fagurbleikur og skínandi blómakrans fléttaður úr þremur nýútsprungnum blómum. Kransinn samanstendur af vafningum sem vefjast um hvern annan og tákna þannig þá umhyggju og stuðning sem við njótum flest á erfiðum tímum. Styrkurinn felst í samstöðu okkar - saman erum við sterkari. Hönnuður Bleiku slaufunnar 2024 er Sigríður Soffía Níelsdóttir. Verkefnið hefur persónulega þýðingu fyrir hana, en hún greindist með brjóstakrabbamein árið 2020.
„Við viljum þakka þeim sem hvorki búast við né ætlast til að fá þakkir, fólkinu sem er svo mikilvægt en á það til það að gleymast – aðstandendum. Við vekjum athygli á aðstæðum þeirra, því mikilvæga hlutverki sem þeir gegna í alvarlegum veikindum,“ segir í tilkynningu frá Krabbameinsfélaginu.