
Jovana Pavlovic fjölmenningarfulltrúi Símenntunar (til vinstri) og Michaela Hrómadkóva við Stykkishólmshöfn. Ljósm. Símenntun Vesturlands.
Símenntun á Vesturlandi velur sigurvegara í ljósmyndakeppni
Ljósmynd Michaelu Hrómadkóvu á Snæfellsnesi hefur verið valin sigurmynd í ljósmyndakeppni Símenntunar Vesturlands. Keppnin átti að snúast um fjölmenningu. Ljósmynd Michaelu (sjá hér að neðan) vakti sérstaka athygli dómnefndar en hún fangar á fallegan hátt mikilvægi mannlegra tengsla í nútímasamfélagi og dregur einnig fram þvermenningarleg samskipti. Myndin varpar ljósi á eitt af gildum Fjölmenningarskóla Vesturlands; um hina ósýnilegu menningu sem krefst dýpri skilnings á ólíkum menningarheimum sem er oft uppgötvuð í gegnum samskipti. Símenntun á Vesturlandi afhenti Michaelu viðurkenningarskjal og bókina „Kynþáttafordómar í stuttu máli,“ eftir Kristínu Loftsdóttur.