
Annar flokkur ÍA Bikarmeistari í knattspyrnu
Breiðablik og ÍA áttust við í úrslitaleik í Bikarkeppni KSÍ í 2. flokki karla í knattspyrnu síðasta miðvikudag og var leikurinn á Kópavogsvelli. Jón Breki Guðmundsson kom Skagamönnum yfir á 14. mínútu og staðan í hálfleik 0:1, ÍA í vil. Breiðablik jafnaði metin í byrjun seinni hálfleiks með marki Atla Þórs Gunnarssonar en aðeins tveimur mínútum síðar náðu gestirnir forystu á ný þegar Börkur Bernharð Sigmundsson skoraði annað mark ÍA. Átta mínútum síðar skoraði Axel Freyr Ívarsson þriðja mark Skagamanna og staðan orðin ansi vænleg. Þegar tæpt korter var eftir af leiknum minnkaði Atli Þór muninn í 2:3 og Blikar þrýstu á að ná jöfnunarmarkinu. En Skagamenn héldu þetta út og þegar rúmar sjö mínútur voru komnar í uppbótartíma flautaði dómarinn leikinn af og Skagamenn gátu fagnað í leikslok.