
Naumt tap Skallagríms gegn Árborg
Árborg og Skallagrímur áttust við í lokaumferð 4. deildar karla í knattspyrnu í gærkvöldi og var viðureignin á Jáverk-vellinum á Selfossi. Það var ansi mikið undir í þessum leik hjá báðum liðum. Skallagrímur gat með sigri tryggt sæti sitt í deildinni á meðan lið Árborgar er í harðri toppbaráttu við Ými og um sæti í 3. deild á næstu leiktíð. Gestirnir úr Borgarnesi byrjuðu betur og fyrirliðinn Elís Dofri Gylfason átti skot í stöng eftir hornspyrnu. Þeir fengu tvö færi til viðbótar áður en Sigurður Arnar Sigurðsson kom Skallagrími yfir eftir tæplega hálftíma leik. Hann fékk boltann á hægri kantinum, tók þríhyrning við Elís Dofra og skaut þrumuskoti fyrir utan teig í nærhornið sem markvörður Árborgar réð alls ekki við. Aðeins sjö mínútum síðar jafnaði hins vegar Elvar Orri Sigurbjörnsson metin fyrir heimamenn og staðan í hálfleik hnífjöfn, 1-1.
Elvar Orri var aftur á ferðinni fyrir Árborg á 53. mínútu og í kjölfarið færðu gestirnir sig framar á völlinn til að reyna að sækja sigur á meðan heimamenn vörðust vel. Elvar Orri fullkomnaði síðan þrennuna tíu mínútum fyrir leikslok, staðan 3-1 og Skallarnir í frekar vondum málum og staðan kannski ekki alveg sanngjörn miðað við gang leiksins. Varnarmaðurinn Arthúr Bjarni Magnason náði að klóra í bakkann fyrir þá undir lok leiksins með skalla eftir hornspyrnu en það mark kom aðeins of seint og lokatölur naumur sigur Árborgar, 3-2.
Þessi úrslit þýða að Skallagrímur þarf að treysta á það að lið RB, sem er í neðsta sæti deildarinnar með átta stig, vinni sigur á KFS á laugardaginn. Með sigri KFS eða jafntefli fellur Skallagrímur í 5. deild en eitt stig er á milli liðanna. Skallagrímur er með 17 stig í 8. sæti en KFS í því níunda með 16 stig og er með betri markatölu.