
Eldur í íbúð í fjölbýlishúsi á Akranesi
Slökkvilið Akraness og Hvalfjarðarsveitar var klukkan 22:35 í kvöld kallað út að fjölbýlishúsinu Asparskógum 16 á Akranesi. Þar logaði eldur í íbúð á neðri hæð og reyk lagði um hverfið. Einn var í íbúðinni þegar kviknaði í og komst óslasaður út. Slökkvistarf gekk greiðlega og nú er unnið við að reykræsta íbúðina. Eldurinn var staðbundinn við þessa einu íbúð í húsinu.
