
Víkingur enn í baráttunni eftir sigur fyrir austan
Höttur/Huginn og Víkingur Ólafsvík áttust við í 2. deild karla í knattspyrnu í gær og var leikurinn á Vilhjálmsvelli á Egilsstöðum. Gestirnir byrjuðu leikinn betur og fengu tvö ágætis færi sem þeim tókst ekki að nýta. Víkingur komst yfir síðan á 11. mínútu þegar Luis Romero Jorge fékk boltann á hægri kantinum og setti hann í fyrsta inn fyrir vörnina. Þar var mættur Björn Axel Guðjónsson sem setti boltann fram hjá markmanni heimamanna og staðan 0-1. Björn Axel fékk síðan dauðafæri á 30. mínútu þegar hann fékk boltann í markteignum en skot hans rataði beint á markvörðinn. Annað mark leiksins kom á 38. mínútu þegar Gabríel Þór Þórðarson átti fína fyrirgjöf og beint á Björn Axel sem gerði ansi vel, hann reis hæst í teignum og skallaði boltann í fjærhornið. Aðeins mínútu síðar minnkaði Árni Veigar Árnason muninn fyrir Hött/Hugin þegar hann skoraði úr þröngu færi á fjærstönginni og staðan 1-2 í hálfleik, Víkingi í vil.