
Grátlegt tap ÍA gegn Blikum
Lið ÍA og Breiðabliks mættust í 20. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í gær og voru aðstæður til knattspyrnuiðkunar á Akranesi með ágætum, völlurinn í góðu standi og veðrið bara fínt. Þetta byrjaði fjörlega því fyrsta færi leiksins kom strax á upphafsmínútunni þegar boltinn datt fyrir Hinrik Harðarson en markvörður Breiðabliks, Anton Ari Einarsson, varði vel skot hans. Anton Ari var síðan aftur vel á varðbergi skömmu síðar þegar hann varði frá Inga Þór Sigurðssyni í teignum og heimamenn óheppnir að vera ekki komnir yfir í leiknum. Það var talsverður hraði og gott tempó í fyrri hálfleiknum án þess að liðin næðu að skapa sér einhver dauðafæri. Eftir hálftíma leik og hornspyrnu flikkaði Ísak Snær Þorvaldsson boltanum sem fór í fjærstöngina á marki ÍA áður en Viktor Jónsson hreinsaði boltann af marklínunni. Á síðustu mínútunni vildu Blikar svo fá víti þegar Árni Marinó Einarsson markvörður ÍA kýldi boltann frá marki og fór aðeins í höfuð Ísaks Snæs í leiðinni en dómari leiksins veifaði leik áfram og staðan markalaus í hálfleik.