
Skagamenn með frábæran sigur á Víkingi
Víkingur Reykjavík og ÍA áttust við í Bestu deild karla í knattspyrnu í gærkvöldi og var viðureignin á Víkingsvelli. Leikurinn í Víkinni fór fjörlega af stað og strax á sjöttu mínútu komust heimamenn yfir í leiknum þegar hinn næstum fertugi Óskar Örn Hauksson fékk boltann við teig Skagamanna. Hann átti góða sendingu beint á kollinn á Valdimar Þór Ingimundarsyni sem skallaði knöttinn framhjá Árna Marinó og í netið. Gestirnir voru hins vegar ekki lengi að jafna sig og aðeins þremur mínútum síðar var staðan jöfn. Viktor Jónsson vann þá skallaeinvígi á vallarhelmingi Víkings og skyndilega voru þeir Hinrik Harðarson og Ingi Þór Sigurðsson tveir gegn einum varnarmanni. Hinrik sendi boltann til hægri á Inga Þór sem kláraði færið vel og staðan 1-1. Eftir þetta voru Skagamenn sterkari aðilinn og fylgdu því eftir með marki skömmu fyrir hálfleik. Aftur slapp Hinrik í gegnum vörn Víkings og átti stoðsendingu á Viktor sem skoraði 15. mark sitt í deildinni í sumar. Staðan 1-2 fyrir ÍA í hálfleik og Víkingar hálf forviða enda ekki tapað leik á heimavelli í sumar.