
Héldu stórt riffilmót í Kolgrafafirði
Um síðustu helgi hélt Skotfélag Snæfellsness eitt stærsta riffilmót sem haldið hefur verið hér á landi. Fór það fram á svæði félagsins í Kolgrafafirði. Að sögn Arnars Diego Ævarssonar, formanns skotfélagsins, nefndist mótið „Fossbúinn Challenge-PRS Match“. „Þetta gekk vel og við ætlum að reyna að gera þetta að árlegu móti og fá til okkar fleiri útlendinga á næstu árum. Skotið var PRS mót og stóð yfir í tvo daga. Skotnar voru 14 þrautir og voru 22 keppendur sem tóku þátt. Þar af voru tveir keppendur frá Noregi sem eru meðal fremstu PRS skytta í heimi. PRS er ein vinsælasta skotíþrótt í heiminum í dag og er sístækkandi. Á þessu móti var keppt í tveimur flokkum; opnum flokki og verksmiðjuflokki. Í verksmiðjuflokki var einn keppandi og var það hún Dagný Rut Kjartansdóttir og hreppti hún því fyrsta sætið,“ sagði Arnar.