
Slæmt tap Skagamanna gegn botnliði Fylkis
Skagamenn hafa greinilega ekki verið komnir niður á jörðina aftur eftir stórsigurinn gegn HK í síðustu umferð þegar þeir mættu botnliði Fylkis og töpuðu 0:3 á Wurth vellinum í Árbæ í gærkvöldi. Skagamenn byrjuðu betur í leiknum en það vantaði samt alla ákefð og boltinn gekk allt of hægt á milli manna. Fylkismenn gengu því á lagið og fóru að ógna marki gestanna og náðu forytunni á 16. mínútu þegar Ómar Björn Stefánsson skoraði af stuttu færi eftir góða fyrirgjöf frá fyrrum leikmanni Skagamanna, Guðmundi Tyrfingssyni. En skömmu áður var umdeilt atvik þegar gripið var í Johannes Vall þegar hann var að komast einn inn fyrir vörn Fylkis, en ekkert var dæmt. Á 29. mínútu bættu heimamenn við forystu sína og komust í 2:0 þegar Orri Sveinn Segatta skallaði einn og óvaldaður í markið eftir hornspyrnu. Þannig var staðan í hálfleik.