Fréttir
Bjarney Lárudóttir Bjarnadóttir. Ljósm. hig

Undirbúningur Unglingalandsmóts gengur vel

Undirbúningur fyrir Unglingalandsmót UMFÍ, sem haldið verður í Borgarnesi um verslunarmannahelgina, er nú í fullum gangi. Bjarney Lárudóttir Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB), segir í samtali við Skessuhorn að von væri á um eitt þúsund þátttakendum; „og svo fylgja þeim yfirleitt tveir til þrír fjölskyldumeðlimir,“ bætir hún við. Unglingalandsmót UMFÍ er vímulaus fjölskylduhátíð þar sem börn og ungmenni á aldrinum 11 - 18 ára reyna með sér í fjölmörgum íþróttagreinum en samhliða er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Mótin hafa farið reglulega fram frá 1992 og árlega frá 2002 um verslunarmannahelgina.

Fjölbreytt dagskrá

„Þetta er sambland af hefðbundnum og óhefðbundnum greinum, það er þetta klassíska; fótbolti, handbolti, körfubolti og svo erum við með grasblak og grashandbolta, frjálsar og sund, upplestur, stafsetningu og kökubakstur sem hefur slegið þvílíkt í gegn síðustu árin,“ segir Bjarney og heldur áfram: „Við erum með biathlon þar sem þau skjóta úr loftbyssum og ef þau hitta ekki fá þau refsingu og eiga að hlaupa einn hring eða eitthvað slíkt. Við verðum einnig með alls kyns kynningar, eins og bogfimi, pílu og borðtennis. Þannig að já, þetta er bara ótrúlega skemmtilegt,“ segir Bjarney glöð í bragði.

Unglingalandsmótið er eins og áður sagði fyrir börn og ungmenni af öllu landinu. Ekki er skilyrði að vera skráð í ungmenna- eða íþróttafélag, heldur mega öll börn taka þátt í öllu. „Ef þau eru ekki í liði geta þau skráð sig sem stakan þátttakanda og eru þá sett í UMFÍ lið, þannig að þátttaka er ekki bundin við að þau finni einhverja vini með sér til að geta tekið þátt í einhverju, þau geta bara skráð sig í hvað sem er,“ segir Bjarney og bætir við að öllum börnum sé velkomið að taka þátt. „Börn með fatlanir hafa og geta tekið þátt í frjálsum íþróttum og sundi. Eins geta þau tekið þátt í fjölmörgum öðrum greinum sem þau treysta sér í, við reynum að koma til móts við þá einstaklinga eins og mögulegt er. Einnig er verið að skoða með sérstakt körfuboltamót fyrir þau.“

Eitthvað fyrir alla fjölskylduna

Aðstandendur Unglingalandsmóts leggja mikið upp úr því að öll fjölskyldan hafi gaman. „Mótið sjálft er fyrir 11-18 ára en það verður líka eitthvað í boði fyrir yngri systkini, þannig að þau geti leikið sér. Það verður eitthvað í boði fyrir alla aldurshópa.“  Á tjaldsvæðinu verður til að mynda partítjald þar sem gestir koma saman á kvöldin og skemmta sér en í framkvæmdanefnd situr fulltrúi Ungmennaráðs og sér, ásamt öðrum, um afþreyingardagskrána og er svo gott sem búið að bóka tónlistarfólk. „Þetta verður bara rosa skemmtileg fjölskylduhátíð.“

Öll að róa í sömu áttina

Bjarney hefur unnið að skipulagi og undirbúningi undanfarna mánuði og er að eigin sögn mjög spennt að sjá afrakstur vinnunnar. „En þetta er alveg heljarinnar batterí, það er margt sem þarf að ganga upp,“ segir hún og bætir við að hún sé hæstánægð með skipulags- og framkvæmdateymið sem starfi með henni. Þau séu öll sem eitt með puttann á púlsinum um að framkvæma hlutina.

„Við erum með svo öfluga framkvæmdanefnd að þetta er bara í góðum farvegi. Ég myndi ekki segja að ég væri iðjulaus en ég hélt fyrirfram að það myndi mæða meira á mér, að ég yrði komin með magasár á þessum tímapunkti,“ segir Bjarney og heldur áfram; „en ábyrgðin er dreifð, okkar á milli, styrkleikarnir mismunandi hjá hverju og einu og við erum bara öll að róa í sömu áttina.“ Bjarney segir einnig marga sjálfboðaliða koma að framkvæmdinni og að þau séu einstaklega heppin með sitt fólk. „Við erum rosalega vel sett af sjálfboðaliðum hérna, það er alveg magnað. Fólk sem er með stórt UMSB hjarta og hefur gert þetta áður – hokið af reynslu í mótahaldi og gengur beint í verkin.“

Nú eru örfáar vikur til stefnu en miðað við gang mála stefnir allt í fyrirmyndar skemmtun og heilbrigða samveru í Borgarnesi um verslunarmannahelgina.

Áhugasamir geta kynnt sér mótið betur og jafnframt skráð sig til leiks á vefsíðu UMFÍ.

Undirbúningur Unglingalandsmóts gengur vel - Skessuhorn