Íþróttir
Byrjunarlið ÍA á móti ÍBV. Ljósm. kfía

Skagakonur á sigurbraut á ný

Það var mikið undir í leik ÍA og ÍBV í Lengjudeild kvenna í knattspyrnu í gær þegar liðin mættust í Akraneshöllinni. Fyrir viðureignina var ÍA í sjötta sæti með níu stig eftir tvo tapleiki í röð á meðan ÍBV var með sjö stig og tvo sigurleiki í röð eftir erfiða byrjun í mótinu. Fyrir leik var einnar mínútu þögn til minningar um Pétur Sigurðsson sem lést á sunnudaginn eftir vinnuslys en hann var faðir Arons Ýmis, sem starfar sem þjálfari hjá ÍA. Fyrsta færi leiksins kom strax á annarri mínútu þegar Eyjakonur áttu ágætis skot að marki en Klil Keshwar varði vel í marki ÍA. Erla Karitas Jóhannesdóttir átti fyrsta færi ÍA á 13. mínútu þegar markvörður ÍBV, Guðný Geirsdóttir, varði skot hennar út í teiginn en heimakonur náðu ekki að fylgja því eftir og sóknin rann út í sandinn. Jafnræði var með liðunum á næstu mínútum og gekk liðunum illa að skapa sér alvöru færi þó að gestirnir væru á köflum aðgangsharðari. Eftir um hálftíma leik kom fyrirgjöf að marki ÍBV, Juliana Marie Paoletti tók boltann niður í teignum og skaut að marki sem Guðný varði út í teiginn. Eins og sönnum framherja sæmir var Erna Björt Elíasdóttir mætt á markteiginn, fylgdi fast á eftir og potaði boltanum í markið, staðan 1-0 fyrir ÍA. Hagur heimakvenna vænkaðist svo enn meir fjórum mínútum fyrir hálfleik þegar Helena Jónsdóttir leikmaður ÍBV varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark. Elvira Agla Gunnarsdóttir tók þá aukaspyrnu á vallarhelmingi ÍA sem rataði á kollinn á Juliönu Mariu sem nikkaði honum inn á vítateiginn. Þar varð smá miskilningur hjá varnarmönnum ÍBV og Helena skaut boltanum frekar klaufalega í netið. Staðan tvö núll fyrir ÍA í hálfleik og heimakonur í góðum málum.

Skagakonur á sigurbraut á ný - Skessuhorn