
Fjör og dramatík í lokin hjá Reyni og Uppsveitum
Á laugardaginn áttust Reynir Hellissandi og Uppsveitir við í B riðli 5. deildar karla í knattspyrnu og var viðureignin á Ólafsvíkurvelli. Eftir þrjá tapleiki í röð voru Reynismenn staðráðnir í því að koma sér á sigurbraut á ný en lið Uppsveita var með tvo sigra og þrjú töp á ferilsskránni. Fyrri hálfleikur var frekar rólegur og markalaus en í seinni hálfleik fóru hlutirnir að gerast. Eftir tíu mínútna leik fékk Steinar Benóný Gunnbjörnsson leikmaður Uppsveita beint rautt spjald og þurfti því að yfirgefa völlinn hið snarasta. Það kom þó ekki í veg fyrir það að á lokamínútu leiksins skoraði Daníel Ben Daníelsson að virtist sigurmark leiksins fyrir gestina og fjórða tap heimamanna í röð að raungerast. Ekki bætti úr skák að tveimur mínútum síðar var Reynismaðurinn Benedikt Osterhammer Gunnarsson rekinn af velli og jafnt aftur á með liðunum. En þegar sex mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma stökk Bárður Jóhönnuson fram á sjónarsviðið og skoraði jöfnunarmark Reynis við mikinn fögnuð heimamanna. Lokatölur 1-1 og mikill léttir fyrir leikmenn Reynis að stöðva taphrinuna og loksins ná í stig og hvað þá á svo dramatískan hátt.