Íþróttir
Úr leik KA og ÍA. Ljósm. Sævar Geir Sigurjónsson/fotbolti.net

Skagamenn komnir í efri hlutann eftir sigur á KA

KA og ÍA áttust við á laugardaginn í Bestu deild karla í knattspyrnu og var leikurinn á Greifavellinum á Akureyri. Það er óhætt að segja að það hafi verið fjör í fyrri hálfleik því öll fimm mörk leiksins voru skoruð í honum. Heimamenn komust yfir eftir tæpan stundarfjórðung þegar Bjarni Aðalsteinsson skaut föstu skoti á milli fóta Árna Marinós í marki ÍA og staðan 1-0. En strax í næstu sókn jafnaði Hinrik Harðarson leikinn fyrir ÍA þegar hann fékk boltann eftir skalla frá varnarmanni KA til baka og hann kláraði færið sitt vel einn á móti markmanni. Skagamenn héldu áfram að sækja eftir markið og á 22. mínútu fékk Steinar Þorsteinsson knöttinn fyrir utan teig KA og lagði hann á Inga Þór Sigurðsson sem smellhitti boltann og hann söng í samskeytunum, staðan 1-2 fyrir ÍA. Á 37. mínútu fengu KA-menn hornspyrnu og úr henni skallaði Ívar Örn Árnason boltann í netið. En skömmu fyrir hálfleik fengu gestirnir vítaspyrnu þegar brotið var á Erik Sandberg inn í teig KA og vítaspyrna var dæmd. Fyrirliðinn Arnór Smárason skoraði örugglega af vítapunktinum og Skagamenn fóru með eins marks forystu í hálfleik, staðan 2-3 eftir ansi fjörugan fyrri hálfleik.

Skagamenn komnir í efri hlutann eftir sigur á KA - Skessuhorn