Íþróttir
Helgi Guðjónsson tryggði Víkingi öll stigin gegn ÍA. Ljósm. fotbolti.net

Vafasamt víti réði úrslitum á Skaganum

ÍA og Víkingur Reykjavík áttust við í Bestu deild karla í knattspyrnu síðdegis á laugardaginn og var viðureignin á Elkem vellinum á Akranesi. Aðstæður til knattspyrnuiðkunar voru alls ekki góðar, mikill vindur var og ekki hægt að bjóða upp á neinn samba fótbolta enda voru áhorfendur frekar fáir eða um 350. Fyrsta hálftímann gerðist lítið, menn voru að reyna að átta sig á vindinum og liðin fengu engin alvöru færi. Eina dauðafærið í fyrri hálfleik kom á 35. mínútu þegar Helgi Guðjónsson átti skot að marki ÍA, Árni Marinó markvörður varði boltann út til Danijel Djuric sem náði skoti sem Árni varði vel í horn. Markalaust eftir fyrri hálfleik og leikmenn eflaust fegnir að komast inn í klefa til að fá smá pásu frá veðrinu.