Íþróttir
Byrjunarlið ÍA gegn Fram. Ljósm. kfía

Alda sá um Skagakonur í sigri Fram

ÍA og Fram mættust í þriðju umferð Lengjudeildar kvenna í knattspyrnu í gærkvöldi og var leikurinn í logninu í Akraneshöllinni. Fyrsta færi leiksins kom á 9. mínútu þegar Erna Björt Elíasdóttir átti góða sendingu inn á markteig Fram þar sem Erla Karitas Jóhannesdóttir var á auðum sjó en í staðinn fyrir að skjóta á markið í fyrsta missti hún boltann frá sér og ekkert varð úr sókninni. Í fyrri hálfleik voru liðin að þreifa fyrir sér, mikið var um stöðubaráttu en lítið um alvöru færi. Framkonur kölluðu eftir víti eftir um rúmlega hálftíma leik þegar virtist vera brotið á Öldu Ólafsdóttur í teignum en ekkert var dæmt. Skagakonur voru þó líklegri á móti sterku liði Fram og þeirra hættulegasta færi kom á 36. mínútu þegar Erna Björt tók háan bolta á kassann við vítateiginn, setti hann inn fyrir vörnina og þar var Juliana Paoletti í dauðafæri en skaut fram hjá markinu. Fleira markvert gerðist ekki í fyrri hálfleik og staðan 0-0 í hálfleik.