
Stjarnan skellti Skagamönnum
Stjarnan og ÍA áttust við í fimmtu umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í gær og var viðureignin á Samsungvellinum í Garðabæ. Gestirnir komust yfir á níundu mínútu leiksins þegar Árni Salvar Heimisson fékk boltann á hægri kantinum, hann átti góða fyrirgjöf sem rataði beint á Hinrik Harðarson og hann afgreiddi boltann snyrtilega í netið. Skömmu síðar fékk Steinar Þorsteinsson dauðafæri fyrir ÍA þegar hann komst einn í gegn en þrumaði boltanum yfir markið. Eftir þetta komust heimamenn betur inn í leikinn og uppskáru mark eftir hálftíma leik. Jóhann Árni Gunnarsson sendi þá knöttinn fyrir af hægri kanti og hann fór beint á kollinn á Emil Atlasyni sem skallaði boltann af krafti í markið. Staðan 1-1 og þó það væru miklar breytingar á veðrinu fram að hálfleik, bæði ausandi rigning og sól, breyttist staðan ekkert og staðan jöfn í hálfleik.