
Skagakonur unnu ótrúlegan sigur í Mjólkurbikarnum
Það var boðið upp á spennu, dramatík og markaveislu í Akraneshöllinni þegar ÍA og Selfoss mættust í 1. umferð Mjólkurbikars kvenna í knattspyrnu í gærkvöldi. Gestirnir byrjuðu betur í leiknum og skoruðu fyrsta mark leiksins á 4. mínútu. Selfoss fékk þá hornspyrnu og skallaði fyrirliðinn Unnur Dóra Bergsdóttir sem var á auðum sjó í teignum boltann í markið. Á 22. mínútu kom annað mark leiksins og aftur voru gestirnir þar á ferðinni. Jóhanna Elín Halldórsdóttir fékk þá boltann á miðjum vallarhelmingi ÍA, rauk upp með boltann að teignum og átti skot að marki. Klil Keshwar markvörður ÍA missti boltann yfir sig sem var frekar klaufalegt og staðan 0-2. Til að bæta gráu ofan á svart bætti Selfoss þriðja markinu við á lokamínútu fyrri hálfleiks. Þá setti Embla Dís Gunnarsdóttir sóknarmaður Selfoss pressu á Klil sem skaut boltanum í hana og hann barst fyrir fætur Katrínar Ágústsdóttur sem setti hann undir Klil í netið. Örskömmu síðar var flautað til hálfleiks og eins og staðan var þarna voru Skagakonur á leið út úr bikarnum þetta árið.