
Skagamenn í öðru sæti eftir stórsigur á Fylki
ÍA tók á móti Fylki í þriðju umferð Bestu deildarinnar í knattspyrnu að viðstöddum yfir sex hundruð áhorfendum í Akraneshöllinni í gær og var frekar þröngt á þingi. Leikurinn byrjaði fjörlega og Skagamenn komust yfir strax á 11. mínútu þegar Hinrik Harðarson fékk boltann vinstra megin, hann tók á rás og skaut föstu skoti niðri í bláhornið. Gestirnir voru sterkari aðilinn eftir markið án þess þó að skapa sér einhver alvöru færi. Besta færi þeirra átti Matthias Præst sem vippaði boltanum yfir Árna Marinó í marki Skagamanna en boltinn fór rétt framhjá. Það dró svo til tíðinda á lokamínútu fyrri hálfleiks þegar Fylkismaðurinn Orri Sveinn Stefánsson fékk beint rautt spjald fyrir að stöðva Marko Vardic sem var að sleppa einn í gegn og annan leikinn í röð voru Skagamenn einum fleiri í seinni hálfleik. Staðan 1-0 fyrir ÍA í hálfleik og ljóst að heimamenn voru í ansi góðum málum.