
Komu heim hlaðin verðlaunum af ÍM50 í sundi
Gott gengi var hjá sundfólki frá ÍA á Íslands- og unglingameistaramótinu í sundi í 50 metra laug sem fram fór í Reykjavík um helgina. Kom hópurinn heim með Íslandsmeistaratitil, Akranesmet, fjögur silfur og 15 brons. Tíu sundmenn frá ÍA tóku þátt á mótinu, en keppendur voru alls 183 frá 16 félögum. Bestum árangri náði Einar Margeir Ágústsson sem landaði Íslandsmeistaratitli í 50m skriðsundi. Einar vann einnig til silfurverðlauna í 50m bringusundi og 50m flugsundi.