Fréttir
Þær taka sig vel út stelpurnar í Pink Ladies. Ljósm. vaks

Söngleikurinn Grease frumsýndur á föstudag

Leiklistaklúbburinn Melló í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi frumsýnir söngleikinn Grease föstudaginn 12. apríl næstkomandi í Bíóhöllinni. Einar Viðarsson er leikstjóri, Flosi Einarsson sér um tónlistarstjórn og Margrét Hörn Jóhannsdóttir um öll dansatriði. Yfir 50 manns taka þátt í sýningunni, 17 hlutverk eru í henni og svo söngtríó, dansarar og hljómsveit. Svo eru enn fleiri sem koma að sýningunni eins og þeir sem sjá um markaðsmálin, búningana, leikmyndina, hár og förðun og fleira. Lögin í sýningunni eru öll sungin á íslensku og eru textar eftir Veturliða Guðnason. Um er að ræða sömu uppfærslu á Grease sem var sýnd skömmu fyrir síðustu aldamót en aðalhlutverkin í þeirri sýningu léku fyrrum hjónakornin Selma Björnsdóttir og Rúnar Freyr Gíslason. 

Söngleikurinn Grease frumsýndur á föstudag - Skessuhorn