
Skallagrímur vann ÍA eftir framlengingu
Vesturlandsslagur ÍA og Skallagríms í 1. deild karla í körfu fór fram fyrir fullu húsi á Jaðarsbökkum á Akranesi á föstudagskvöldið. Það var mikið í húfi fyrir utan montréttinn því liðið sem myndi ná sigri væri með aðra höndina á heimaleikjaréttinum í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Það var tekist hart á frá byrjun leiks og liðin skiptust á að ná forystu í fyrsta leikhluta. Þegar hann var hálfnaður var staðan 13:12 fyrir ÍA en síðan náðu heimamenn góðum kafla og leiddu með sjö stigum við lok hans, staðan 31:24 ÍA í hag. Skallagrímsmenn fengu líklegast orð í eyra í leikhléinu og þeir náðu 3-16 áhlaupi á fyrstu þremur mínútunum, staðan allt í einu 34:40 gestunum í hag. Skagamenn svöruðu þessu með tíu stigum í röð, staðan 44:40 þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir í hálfleik en Skallarnir voru þremur stigum yfir þegar flautað var til hálfleiks og baráttan í algleymingi, staðan 46:49.