
Ísak Birkir í öðru sæti á Íslandsmótinu í keilu
Íslandsmót einstaklinga í keilu var haldið um helgina og þar átti Keilufélag Akraness marga keppendur. Ísak Birkir Sævarsson, Magnús Sigurjón Guðmundsson, Matthías Leó Sigurðsson, Tómas Freyr Garðarsson, Særós Erla Jóhönnudóttir og Vilborg Lúðvíksdóttir komust öll í milliriðil. Í undanúrslit, sem spiluð voru á mánudagskvöldið, komust Vilborg, Særós og Ísak. Þess má geta að Særós er einungis 13 ára gömul og endaði í 6. sæti á mótinu. Í undanúrslitum þegar spilað var maður á mann vann hún þrjá af sjö leikjum sínum og þar á meðal nýkrýndan Íslandsmeistara. Ísak Birkir komst áfram í úrslit og þar af leiðandi í beina útsendingu á Stöð 2 Sport. Þar hófu þrír bestu leik og sá sem var lægstur lenti í 3. sæti. Ísak Birkir endaði í 2. sæti eftir frábæra spilamennsku.