
Lucien Christofis átti stórleik á móti Ármanni. Hér í leik gegn ÍR fyrr í vetur. Ljósm. Jónas H. Ottósson
Skagamenn unnu Ármenninga í spennuleik
Ármann og ÍA tókust á í hörkuviðureign í 1. deild karla í körfuknattleik í gærkvöldi og var leikurinn í Laugardalshöllinni. Skagamenn höfðu tapað þremur leikjum í röð í deildinni og þurftu því nauðsynlega á sigri að halda til að koma sér á rétta braut á ný. Leikurinn fór hægt af stað og liðin skiptust á að ná forystunni í fyrsta fjórðungi. Eftir um fimm mínútna leik var staðan 6:11 ÍA í vil en þá fóru liðin á flug og Ármann leiddi með einu stigi eftir fyrsta leikhluta, staðan 25:24. Heimamenn voru með fimm stiga forskot um miðjan annan leikhluta, 40:35, og voru ávallt með nokkurra stiga forystu fram að hálfleik og staðan 55:51 fyrir Ármanni þegar liðin gengu til búningsklefa til skrafs og ráðagerða.