
Jafntefli hjá ÍA og Víkingi R. í Lengjubikarnum
ÍA fékk Víking Reykjavík í heimsókn í Akraneshöllina í gærkvöldi í fjórðu umferð í riðli 4 í A deild Lengjubikarsins í knattspyrnu karla. Fyrir leik voru Skagamenn í 2. sæti með sex stig og Víkingur með fimm stig í 4. sæti. Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik en Árni Marinó Einarsson markvörður ÍA varði vítaspyrnu frá Nikolaj Hansen og staðan því markalaus. Heimamenn komust síðan yfir á 66. mínútu þegar markahrókurinn Viktor Jónsson stýrði boltanum í netið eftir góða fyrirgjöf frá Jóni Gísla Eyland. Þegar allt leit út fyrir sigur Skagamanna jafnaði Nikolaj Hansen metin fyrir Víking á lokamínútu leiksins þegar hann skallaði boltann í markið eftir fyrirgjöf frá Karli Friðleifi Gunnarssyni. Víkingur komst síðan í álitlegt færi á lokasekúndum leiksins en heimamönnum tókst að koma boltanum í burtu eftir smá klafs í vítateignum og niðurstaðan var jafntefli, 1-1.