Fréttir
Í gær var spilað á 14 og hálfu borði, sem þýddi að tvö voru ætíð í yfirsetu í hverri umferð. Ljósm. mm

Vaxandi áhugi fyrir félagsvist hjá FEBAN

Í vetur hefur þátttaka í félagsvist farið vaxandi á vegum Félags eldri borgara á Akranesi og í nágrenni. Að jafnaði er spilað á 11 til 15 borðum eftir hádegi á mánudögum. Spilað er í sal FEBAN við Dalbraut 4 og er Jóhann Magnús Hafliðason keppnisstjóri. Hann beitti sér fyrir því að félagið festi síðasta vor kaup á 21 spilaborði og hafa þau nýst vel. Spiluð er ein umferð með 24 spilum, kaffi er í hálfleik og að endingu eru veitt verðlaun fyrir efstu sætin. Blaðamaður Skessuhorns kíkti á hópinn í gær og var létt yfir mannskapnum og rétta spilaskapið alls ráðandi. Einnig er boðið upp á að spila bridge og var setið við eitt borð í gær, en stundum við fleiri.