
Snæfell tapaði í sveiflukenndum leik
Selfoss og Snæfell tókust á í 1. deild karla í körfuknattleik í gærkvöldi og úr varð leikur mikilla sviptinga. Leikurinn var afar mikilvægur fyrir gestina úr Stykkishólmi því þeir þurftu nauðsynlega tvö stig til að koma sér upp að hlið Hrunamanna í 11. og 12. sæti og reyna að ná að sleppa við fall. Leikurinn á Selfossi byrjaði fjörlega, liðin skiptust á að ná forystu en heimamenn náðu síðan níu stiga forskoti rétt fyrir lok fyrsta leikhluta, 23:14, og staðan var 26:18 þegar honum lauk. Gestirnir byrjuðu hins vegar annan leikhluta af þvílíkum krafti og skoruðu fjórtán stig í röð framan í Selfyssinga sem hittu ekki ofan í körfuna fyrr en eftir fimm mínútna leik og staðan 28:32 fyrir Snæfelli á þeim tímapunkti. Snæfell fylgdi þessu síðan ágætlega eftir og voru með átta stiga forskot þegar flautað var til hálfleiks, 38:46.