
Dalabyggð sendir frá sér beittar athugasemdir við reglugerð um sjálfbæra landnýtingu
Sveitarstjórn Dalabyggðar hefur sent ítrekaða umsögn við tillögu Matvælaráðuneytisins um framkomin reglugerðardrög um sjálfbæra landnýtingu. Einnig hefur Björn Bjarki Þorsteinsson sveitarstjóri vakið athygli á ýmsum vanköntum málsins í greinaskrifum. Hvetur hann til þess að Matvælaráðuneytið hugsi sinn gang og dragi áform sín til baka. Drögin birtust fyrst í samráðsgátt stjórnvalda í september 2021 og barst þá fjöldi umsagna. Ný drög voru birt í janúar sl. með tímafresti til 20. febrúar og telur sveitarstjórn Dalabyggðar þau hafa tekið sorglega litlum breytingum frá fyrri stigum þrátt fyrir ábendingar. Í nýrri umsögn hennar er farið yfir fjölmörg atriði, enda vísað til þess að meirihluti íbúa sveitarfélagsins sé með landbúnað og afleidd störf að megin atvinnu.