
Skallagrímur með frábæran sigur á Fjölni
Fjölnir og Skallagrímur áttust við í 1. deild karla í körfuknattleik á föstudagskvöldið og var leikurinn í Dalhúsum í Grafarvogi. Fyrir leik var Fjölnir á toppi deildarinnar með 30 stig en Skallagrímur í 5. sæti með 18 stig. Í síðustu viðureignum liðanna höfðu Skallagrímsmenn haft betur og því spennandi að sjá hvort breyting yrði þar á. Gestirnir úr Borgarnesi byrjuðu betur en síðan skoraði Fjölnir sjö stig í röð og jafnt var eftir fimm mínútna leik, 13:13. Í stöðunni 17:17 skoruðu Skallarnir sex stig í beit og leiddu með þeim mun eftir fyrsta leikhluta, staðan 21:27. Í öðrum leikhluta náðu leikmenn Skallagríms góðum kafla og náðu mest tólf stiga forystu. Fyrst og fremst var það vörn gestanna sem hélt heimamönnum í skefjum en Fjölnismenn voru einnig ekki að hitta vel úr skotum sínum. Þeir náðu þó að koma til baka og munurinn var aðeins sex stig á milli liðanna þegar flautað var til hálfleiks, staðan 40:46 Skallagrími í vil.