
Keppni í pönnukökubakstri aftur komin á dagskrá á Landsmóti 50+
Fulltrúar UMFÍ, ungmennafélagsins Þróttar Vogum og sveitarfélagsins Voga skrifuðu um miðja síðustu viku undir samning um Landsmót UMFÍ 50+ sem haldið verður í Vogum í sumar. Boðið verður upp á klassískar greinar; pönnukökubakstur, brennó og margt fleira. Búist er við fjölmennasta mótinu frá upphafi, samkvæmt frétt á vef UMFÍ. „Við erum búin að ákveða keppnisgreinar og ég get upplýst að keppni í pönnukökubakstri er aftur komin á dagskrá ásamt strandarhlaupi, keppni í félagsvist og brennó á Landsmóti UMFÍ 50+ þegar það verður haldið í Vogum í sumar,“ segir Petra Ruth Rúnarsdóttir, formaður Ungmennafélagsins Þróttar Vogum. Hún er jafnframt formaður framkvæmdanefndar mótsins sem fundaði í íþróttahúsinu í Vogum í síðustu viku. Mótið verður haldið dagana 7.-9. júní.