Íþróttir
Snæfell hefur átt erfitt uppdráttar í fyrstu deildinni í vetur. Ljósm. vaks

Skallagrímur vann öruggan sigur á Snæfelli

Skallagrímur tók á móti Snæfelli í Fjósinu í Borgarnesi í 1. deild karla í körfu í sannkölluðum Vesturlandsslag á föstudagskvöldið. Fyrir leik var staða liðanna í deildinni nokkuð ólík, Skallagrímur var með 16 stig í 5.-7. sæti á meðan Snæfell var í því neðsta með fjögur stig. Það sýndi sig þó ekki alveg í byrjun leiks því eftir rúmar fimm mínútur var staðan 14:12 Sköllunum í vil. En þá skoruðu heimamenn tólf stig í röð á tveggja mínútna kafla og staðan var allt í einu 26:12. Þegar fyrsta leikhluta lauk voru heimamenn með 13 stiga forskot og erfiður róður framundan virtist vera hjá gestunum, staðan 29:16. Fyrstu mínúturnar í öðrum leikhluta var munurinn yfirleitt í kringum tíu stigin en síðan tóku leikmenn Skallagríms smá sprett og fóru með 16 stiga forystu inn í hálfleikinn, staðan 51:35.