
Vesturlandsliðin töpuðu öll í körfunni um helgina
Sextánda umferðin í fyrstu deild karla í körfuknattleik fór fram á föstudagskvöldið og þurftu liðin þrjú af Vesturlandi öll að þola tap. Mesta spennan var í leik Sindra og Skallagríms sem var í Ice Lagoon höllinni á Höfn þó lítið hefði bent til þess miðað við hvernig leikurinn fór af stað. Þegar fimm mínútur voru liðnar af leiknum var staðan reyndar 12:10 fyrir Sindra en þá fór allt í skrúfuna hjá gestunum. Heimamenn skelltu í lás og náðu 15-3 áhlaupi og staðan við lok fyrsta leikhluta 27:13 fyrir Sindra. Steini lostnir Skallagrímsmenn reyndu hvað þeir gátu til að koma sér inn í leikinn í öðrum leikhluta en lítið gekk hjá þeim í fyrstu. Um miðjan leikhlutann var staðan 35:21 fyrir Sindra en þá náðu gestirnir ágætis kafla og höfðu náð að minnka muninn niður í átta stig fyrir hálfleik, staðan 41:33 heimamönnum í hag.