Fréttir
Grillhúsið er vel í sveit sett við þjóðveginn gegnum Borgarnes. Ljósm. gj

Grillhúsið í Borgarnesi til nýrra eigenda

Grillhúsið í Borgarnesi hefur verið selt til nýrra eigenda sem munu reka það áfram undir sama nafni. Það er Örvar Bessason sem hefur keypt staðinn ásamt fjárfestum. Örvar hefur starfað við matreiðslu frá blautu barnsbeini og hefur verið rekstrarstjóri á Grillhúsinu í Borgarnesi frá því síðastliðið haust. Hann er búsettur í Borgarnesi og segist hafa trú á bænum og vexti hans. Hann sér tækifæri í að Grillhúsið verði vettvangur fyrir viðburði ásamt því að bjóða áfram upp á góðan mat á viðráðanlegu verði. Þar hafa verið haldnir tónleikar, spurningakeppnir (pöbbkviss) og fleira. Enn fremur verður þar haldin blúshátíð í mars næstkomandi og er það á vegum hússins með tilstyrk Uppbyggingarsjóðs Vesturlands. Með þessu hyggst Örvar auðga menningarlífið á svæðinu enn frekar og hugar þar sérstaklega að íbúum í Borgarnesi og næsta nágrenni. Veitingastaðir Grillhússins hafa verið þrír á landsvísu, á Laugavegi og Sprengisandi í Reykjavík, auk Borgarness. Það var allur reksturinn sem auglýstur var til sölu, en það er þó einungis Borgarnesútibúið sem Örvar kaupir.

Grillhúsið í Borgarnesi til nýrra eigenda - Skessuhorn